2.10.2013 | 08:24
Baklandið.....
Mikið ofboðslega er ég þakklát fyrir það bakland sem ég á, sambland af fjölskyldu, vinum og kunningjum sem göfga mína tilveru. Eru til staðar þegar ég þarf á að halda og vonandi upplifa þau það sem "two way street". Þetta fólk hefur gefið mér mikið í gegnum tíðina og mun væntanlega um ókomna tíð.
En baklandið er ekki sjálfsagður hlutur, baklandinu má í marga staði líkja við bakgarðinn hjá þér. Ef þú ræktar hann ekki og sérð til þess að þú hreinsir arfa og annað illgresi úr garðinum þá mun hann aldrei vera fallegt og gott fyrirbæri. Hversu mikla rækt hver og ein planta í garðinum þarf er misjöfn en allar þurfa þær eitthvað. Það er því í okkar hlut að ákveða hversu miklir garðyrkjumenn við viljum vera og hvernig við viljum að okkar garður vex og dafnar.
Í því samhengi verður mér hugsað til texta sem ég las nýverið "ef þér finnst alltaf grasið grænna hinu megin, hvernig væri væri þá að einbeita sér af því að rækta þitt eigið gras" ef maður er alltaf að hugsa um eitthvað annað en sitt bakland þá skal engan undra að það sé ekki til staðar þegar á reynir.
Þótt að ég búi í útlöndum og sé einu + hafi frá mörgum af mínum "plöntum" þá eru þetta all flest sígrænar furur sem hafa vaxið og stækkað á mun lengri tíma en mjólkin er að skemmast í kæliskápnum. Þessi "tré" hafa sínar rætur og vaxa og dafna best í jarðvegi sem þau velja sér og vonandi get ég verið smá áburður á þeirra jörð sem og þau mína. En ég er líka svo heppin að hafa einstaklega sterkt bakland í mínum nýja jarðvegi og líka notið þess að fá viðbót við mitt bakland í nýju landi og baklandið mitt mælist einungis í gæðum ekki magni. Ég er alltaf opin fyrir nýjum meðlimum í baklandið en vil líka einbeita mér að því að rækta það sem ég átti fyrir og ekki láta það visna upp og deyja heldur reyna að leyfa því að dafna og halda áfram rækt.
Já í dag sem og all flesta aðra daga er ég svo þakklát öllum þessum einstaklingum og segi hér með við hvern og einn þeirra (og þarf engan veginn að nafngreina einn eða neinn þið vitið hver þið eruð) "að mer þykir svo ofurvænt um ÞIG og allt sem þú hefur gert fyrir mig í lífinu og vona að þú vitir að þegar þú þarft á mér að halda, hvort sem það er um dag eða nótt, í dag eða eftir 10 ár, hérna eða á jaðri alheimsins þá verð ég til staðar fyrir þig og mun reyna allt sem ég get til að reynast þér jafn vel og þú hefur reynst mér og vonandi rúmlega það"
eigið yndislegan dag öll...
Inger
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.