30.9.2013 | 06:57
Magnaður mánudagur!
Skilnaður og börn.... er málefni dagsins hjá húsfreyjunni á Nørregade. Fyrir nákvæmlega ári sátum við fyrrverandi hjónin í sófa á fyrrum heimili okkar og tilkynntum börnum okkar að foreldrar þeirra væru að skilja. Eðlilega var það þeim mikið áfall en við reyndum að hughreysta þau í gegnum fyrsta skrefið með því að segja þeim að auðvitað væri þetta ekki neitt sem þau bæru sök eða ábyrgð á og að þótt að foreldrar þeirra væru að rjúfa sín tengsl/heit/samband þá væri okkar höfuðmarkmið að koma þeim áfram til manna og reyna allt sem við gætum til þess að allt sem við gerðum væri þeim fyrir bestu. Þetta hafa síðan þá báðir aðilar reynt að gera eftir mesta megni með eðlilegum hrösunum að ég tel.
Það fyrsta sem ég verð að segja í þessu samhengi er að þrátt fyrir að þau séu aldrei orsök eða afleiðing skilnaðar væri afskaplega óþroskað að halda ekki að þau séu þáttakendur í skilnaði hvort sem maður gæfi handlegg og nýra til þess að hlífa þeim við þeim gjörningi. En það besta er að viðurkenna að þau eru líka þáttakendur í skilnaði hjóna því jú þau eru meðlimir nær fjölskyldunnar. Hvernig þeirra hlutverk er spilað í gegnum þetta ferli er svo aftur í stórum dráttum á ábyrgð fullorðna fólksins. Það er okkar að reyna að skilja að, rof á fyrrum sambandi okkar og ábyrgð okkar sem foreldra. Þetta auðvitað er mjög flókið og kannski veitir það einhverja huggun að all flestir foreldrar sem standa í skilnaði reka sig eitthvað á, á leið sinni í gegnum þetta allt saman. Ég eins og flestir foreldrar er engin undantekning þar á. Fyrir mér er afskaplega mikilvægt að ég reyni að skilja eins vel að samskipti mín við minn fyrrverandi mann varðandi einhver málefni okkar á milli og nauðsynleg samskipti varðandi börnin, þetta hefur auðvitað ekki alltaf gengið vel en eins og í byrjun vorum við bæði að reyna að fara eins "ljúft" í gegnum þetta ferli og við gætum, okkur báðum var ekkert mikilvægara en að börnin kæmust eins heil eins og mögulegt var og með það að leiðarljósi er sú vegferð amk mun auðveldari en ella. Við byrjuðum eins og svo margir aðrir að reyna að vera vinir, en ári seinna og kannski örlítið vitrari tel ég að það sé fyrir all flesta ómögulegt á meðan báðir aðilar eru að reyna að vinna sig í gegnum skilnað, þegar þeirri vinnu er lokið er það kannski raunhæft en ekki á meðan á því stendur. Allar línur verða óskýrari því auðvitað hoppar maður ekki yfir í nýtt hlutverk með því að smella fingrum og allt er eins og maður óskar sér það. Þetta rákum við okkur á miklu oftar en einu sinni.... En það að vera kurteis og ófeimin/n að eiga heilbrigð samskipti hvað varðar börnin ætti að vera það eina sem skiptir máli, hvort fólk sem er að standa í skilnaði séu vinir og í stöðugum samskiptum er algerlega aukaatriði og satt best að segja út frá minni reynslu bara að gera alla hluti erfiðari fyrir alla aðila.
Það skal ekki gleymast að skilnaður er rof á einhverju og þótt að það sé auðvitað það sem erfitt er að rjúfa er það nákvæmlega það sem þarf að gerast, rjúfa fyrri tengsl enda öllum ljóst að þau voru og eru engum góð því þá væri fólk auðvitað ekkert að standa í skilnaði. En eins og áður sagði eru börnin þáttakendur í þessu ferli hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þau eru eins og við segjum saklausir þáttakendur í miður skemmtilegu ferli, en það er alfarið á okkar ábyrgð hvort að við viðurkennum það hlutverk og reynum að leiða þau í gegnum þetta ferli með eins litlum neikvæðum áhrifum eins og hægt er, og reyna að minnsta kosti sitt allra besta hverju sinni. Ég á afskaplega opin samskipti við mín börn, það er ekkert sem ég ekki ræði við börnin mín komi viðfangsefnið upp, hvernig ég ræði það er auðvitað kannski mjög ólikt þar sem annað barnið er 14 ára og hitt er 11 ára og í grunnin eru þau líka svo ólík að ég beyti í mörgum tilvikum ólíkum aðferðum þar. Ég hef það að markmiði að spila börnin mín aldrei sem peð í samskiptum mínum við minn fyrrum mann og heilagasta reglan mín þar er að ALDREI eiga samkipti í gegnum börnin og hana hef ég alltaf virt, alveg sama hvernig mér líður eða hvað sé í gangi í samskiptum mínum og fyrrverandi manns míns, höfum við skyldur sem ekki falla niður við skilnað og það er að passa rétt barna okkar á eins góðu lífi og okkur er fært að veita þeim og meðan tveir eru um það hlutverk þá er ekki hægt að gera það án samskipta og í mínum huga miður sorgleg samskipti að eiga þau í gegnum börnin en oftar en ekki það algengasta sem fólk gerir í skilnaði og þar með búin að setja börnin í hlutverk sem fyrir mér er þeim alls ekki holt.
En það að stinga höfðinu í sandinn og tala ekki um neitt og fela fyrir þeim hvað sé í gangi nánst sama hvað það er, er fyrir mér leið sem engum getur reynst góð. Við fullorðna fólkið gleymum því oft hvað þetta eru skynsamar verur þessi börn okkar og hafa í gegnum árin lært miklu meira en við gefum þeim kredit fyrir og að mínu mati ef að við eigum ekki samskipti við þau og reynum að upplýsa þau hverju sinni sækja þau upplýsingarnar eitthvað annað, hvort sem það er í hausnum á sér á atburðum og tilfinningum sem þau kannski ekki skilja eða þekkja en þó það skynsöm að skynjun þeirra er oftar en ekki framar okkar skilningi. Eina vopnið mitt hérna eru opin og heilbrigð samskipti, hvort sem það er rétt eða ekki verð ég að gera það sem ég tel best í uppeldi barna minna hverju sinni og eins og ég hef skrifað í fyrri skrifum mínum er það eitthvað sem ég ber ábyrgð á og meðan ég er sátt við framferði mitt á því sviði þá get ég verið besta útgáfan af mér hverju sinni.
En þetta er mín leið, hvort og hvernig hún heppnast mun ekki koma í ljós strax, það mun tíminn leiða í ljós. Hún er ekki allra og eins heitt og ég óska þess að aðrir virði minn rétt til þess að ala mín börn upp á minn hátt þá reyni ég eftir fremsta megni að virða annar rétt til hins sama. Ekkert alltaf sammála aðferðum og tækni en það að vera sammála um að vera ósammála er þroskaðasta og virðingarfylsta skilgreining mín á því að virða mínar aðferðir sem og annara.
að því sögðu óska ég ykkur velferðar inní þessa viku :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.